You are currently viewing Bernharður Jónsson Keldnakoti

Bernharður Jónsson Keldnakoti

Bernharður var formaður í tíð áraskipanna. Hann bjó í Keldnakoti, fæddur 1849 og dáinn 1927. Hann var formaður í Þorlákshöfn í 4 vertíðir og á Stokkseyri 36 vertíðir, lánsamur til sjávarins og aflasæll.

Eftirfarandi formannsvísa er til um Bernharð og mun vera eftir Magnús Teitsson:

Brims þó úti báran há
Bernharður með drengi
ljónið súða lætur gá
löngubúðar þakið á.

Bræðurnir Bernharður í Keldnakoti og Jón í Eystri Móhúsum voru báðir meðal fremstu formanna á Stokkseyri. Bernharður þótti þó ávalt „betri formaður“ en Jón, sem lét kappið og að því er virtist forsjárleysið fara með sig í gönur, en engu síður var hann heppinn en Bernharður, sem fór gætilegar og athugaði bæði veður og sjó eins og vera ber. Hvorugum þeirra hlekktist þó á og Jón var stundum svo heppinn og aflasæll, einkum þegar út á leið og fiskur var annaðhvort lagstur er farinn að síga á djúpið, að hann kom drekkhlaðinn í land hvern róðurinn eftir annan, þótt aðrir fengju ekki bein.

Einhverju sinni var Jón á sjó sem aðrir í asafiski miklu. Bátur hans var orðin hlaðinn en mikið út af lóðinni sem seilaði af fiski; eigi að síður hélt Jón áfram að draga lóðina, en bátsmaður hans, Vigfús gamli Ásbjarnason í Efra Seli, lét jafnmarga fiska útbyrðis á bakborða, sem Jón tók inn á hitt borðið, því ella hefði hann hlaðið bátinn í sjó. Segir þá Jón og lítur fram eftir á hin þóttufull rúm bátsins: „Mikið ber blessaður báturinn piltar” En þarna flýtur  fiskur, náið þið honum!“

Þegar flest skipin úr öllum veiðistöðvunum milli ánna urðu að hleypa til Þorlákshafnar í ofsabrimi 16. mars 1895 urðu allir þeir í land voru komnir og að því komust að taka á móti skipunum jafnfljótt sem þau komu í vörina og kenndu grunns. Gekk þá óbrotinn sjórinn yfir þau alla leið fram í barka, en menn allir héldu sér í borðstokkana eða í þóttuna uns skipin voru dregin svo hátt upp úr sjónum, að þeir næðu að komast í land. Þegar Jóni skaut upp úr skauti skipsins var hann með stærsta fiskinn undir vinstri hendi sér og hélt undir kjálkabarð fiskjarins með hægri hendi og kallaði hástöfum til háseta sinna: „Blessaðir bjargið þið fiskinum piltar, því hinir bjarga hinum!“ – Þessir „hinir“ voru þeir er í landi voru, en áttu að bjarga „hinum“, þ.e. mönnunum. – Og hefir hann þá eigi vitað hvað hann vara að segja fyrir ofurhugnum og ákefðinni í að ná í senn mest af fiskinum. Vitanlega fór allur hausfiskur, og allra annarra í sjóinn og rak  í stórum hrönnum inn í Skötubót.

Bræður þessir voru líkir að vexti og vallarsýn. Hávaxnir og þreklegir, rjóðleitir í andliti, einkum Jón, og með stórt nef og víðan munn, enni í meðallagi hátt og augu fremur smá og brimleit. Þeir voru karlmannlegir og fremur laglegir. Báru af sér góðan þokka, einkum Bernharður. Hann var tvíkvæntur. Ingunni ?dóttur Jónasar í Keldnakoti og síðar Jórunni Jónsdóttur frá Dalbæ í Hreppum, systur Sigurgeirs verslunarmanns á Stokkseyri.