17-Aðbúnaður Eyrarbakkaverzlunar

Síðustu dagar einokunarinnar

Frá aldaöðli hafði ein hin stærsta og umfangsmesta verzlun landsins verið rekin á Eyrarbakka. Um langt skeið var hún talin meðal hinna illræmdustu einokunarverzlana Dana, er þeir höfðu rekið hér á landi. Lengi vel var hún í höndum kaupmanna þeirra, er áður voru í förum til Finnmerkur, hinna verstu manna við að eiga, því að þeir voru harðir mjög og ósvífnir á flestar lundir; gengu þeir á rétti fólksins, hvar og hvenær sem þeir gátu komið því við, fluttu inn í landið alls konar óþarfavarning, einkum brennivín og tóbak, en létu helztu nauðsynjavörur allar sitja á hakanum.

Úti um allar sveitir höfðu þeir erindreka sína, er buðu fólkinu nautnavörur þessar með okurverði. Væri kært yfir framferði kaupmanna þessara og kaupahéðna þeirra, báru kærurnar sjaldan mikinn árangur. Drykkjuskapur og önnur óregla óx mjög um þessar mundir og um aldaskeið (sbr. Jón J. Aðils: Einokunarverzlun Dana á Íslandi, bls. 303 og víðar).

Einokunarböndin áttu að vísu að heita leyst 1787. En hversu Dönum þeim, er verzlun ráku á Eyrarbakka í byrjun 19. aldar, hafi verið ljúft að slaka á þeim, svo að nokkru næmi, má sjá af eftirfarandi sýnishorni:

Á aðfangadag jóla, 24. desember 1807 fer fram sáttagerð ein milli verzlunarstjórans á Eyrarbakka og sex skuldunauta verzlunarinnar, og er hún á þessa leið: ,,Þann fisk, sem við eignumst á næstkomandi vertíð, skulum við hvergi annars staðar burtselja en til Eyrarbakkahöndlunar; hrökkvi hann ei til okkar skuldalúkningar, lofum við að vinna í hverri þénustu sem vera vill fyrir téða höndlun og hvergi annars staðar, þar til okkar skuldir eru að öllu til Eyrarbakkahöndlunar aldeilis betalaðar, sem og að róa til fiski á þeim skipum, sem hennar forstöðumönnum eru tilheyrandi“.

Jóhann Chr. Sunckenberg keypti verzlunina 25. júlí 1795 ásamt jörðunum Einarshöfn og Skúmsstöðum af hinni konunglegu finnmersku verzlunarsölunefnd fyrir 319 Rd. 85 sk., en 16. marz 1807 keypti Niels Lambertsen þessa sömu eign fyrir sama verð, og hefur hann því verið eigandi hennar 2-4. des. sama ár, þá er sáttagjörðin fór fram.Virðingargjörð á verzlunarhúsum á Eyrarbakka 4. júlí 1774.

Hinn 4. júlí 1774 virti Steindór sýslumaður Finnsson verzlunarhúsin á Eyrarbakka ásamt þeim Jóni lögréttumanni Brynjólfssyni, Felix hreppstjóra Klemenssyni, Gunnari Gamalíelssyni, Magnúsi Bjarnasyni, Þórði Gunnarssyni og Eyjólfi Benediktssyni. Hlutaðeigendur voru: Kaupmaður Christian Hartman (sem viðtakandi?) og kaupmaður Christian Ladon og Arbejdskarl Jens Larsen (sem skiluðu af sér?).

1. Krambúðin er byggð 1755, 9 gluggafög, 18 álnir á lengd, 13 álnir á breidd, 10 álnir og 5 þuml. á hæð, virt 310 Rd. 2-. Stóra sláturhúsið, 14 gluggafög, 29~i álnir á lengd, 111/4 álnir á breidd, 11½ alin á hæð, virt 510 Rd.

3. Minna sláturhús, 12, gluggafög, 2-4 álnir á lengd, 13 álnir á breidd, 10½ alin á hæð, virt 2,80 Rd.

4. Mörbúðin 6 gluggafög, 12, álnir á lengd, 9 álnir og 10 þuml. á breidd, 9 álnir á hæð, virt 2,0 Rd.

5. Íbúðarhús, byggt 1765, 11 gluggafög, 18 álnir á lengd, 14 álnir á breidd, 11;/2 alin á hæð, virt 1800 Rd.

Tvöfaldur skúr, virtur 4 Rd.

Skemma, virt 55 Rd.

Smiðja, virt 14 Rd.

Hesthús, virt 2 Rd.

Hús við íbúðarhúsið, byggt l 772, virt 6 Rd.

Pakkhús í Selvogi, byggt 1770, virt 110 Rd.

Pakkhús í Þorlákshöfn, virt 6 Rd. Samtals: 3117 Rd.

Við tölulið 12: ,,Et lidet Tillæg til det afskaffede Badhus (fremur en Baadhus) i Thorlakshavn“.

Ýmsir innanstokksmunir og áhöld voru og virt, en flest með lágu verði. Þótti eigi ástæða til þess að skrifa það upp, enda liggur langur listi fyrir um það allt í Þjóðskjalasafninu.

Virðingargjörðir þessar eru sennilega uppkast að hreinni virðingargjörð, því á einstöku stað eru orð og tölur strikaðar út, og virðingargjörðin er ekki undirskrifuð. (Skrá um skjöl í Árnesþingi, bls. 90 í Þjóðskjalasafninu).

Verzlunarhúsin

Það er líklegt, að hvergi hafi verzlunarhús hér á landi verið betri né meiri en á Eyrarbakka (sbr. Jón J. Aðils: Einokunarverzlun Dana á Íslandi, bls. 303). Hinn 4. júlí 177 4 framkvæmdi Steindór Finnsson sýslumaður virðingargjörð á húseignum Eyrarbakkaverzlunar. Gerði hann það samkvæmt „Vestindisk, samt Toldkammer Collegii Ordre“. Taldist honum svo til, að húsin væri 3117 rd., en áhöldin 1200 rd. virði. Íbúðarhúsið eitt var metið á 1800 rd.; stendur það enn í dag og er því orðið 180 ára gamalt. Munu margir kannast við það undir gamla – og nýja – nafninu Húsið, en um eitt skeið var það nefnt Garður, og er af því dregið nafnið Garðbær, sem stóð þar sem Fjölnir (Templarahúsið) stendur nú.

Þá er ég var við Eyrarbakkaverzlun, 1886-190fl, var húsum þannig skipað þar:

1. Austast var aðalverzlunarhúsið, nálega 36 álnir á lengd, einlyft, með háu risi, og sneri það frá norðri til suðurs. Því var skipt í þrjár deildir: Nýlenduvöru-, vefnaðarvöru- og kjallaradeild. Var hinn svonefndi kjallari í norðurenda þess og á sömu hæð sem hinar deildirnar, en undir því að norðanverðu og einnig undir aðalgeymsluhúsinu var hinn raunverulegi kjallari. þar sem geymdar voru aðalvínbirgðirnar og aðrar slíkar „nauðsynjavörur“. Þar var og tekið á móti laxinum, hann pakkaður og sendur utan. Laxinn var ein hin verðmætasta útflutningsvara verzlunarinnar. Í kjallara þessum hafði beykirinn bækistöð sína; var það lengst um danskur maður og jafnan fá ár í senn. Stundum hafði hann einnig aðstoðarmann, danskan, og var hann nefndur undirbeykir (Vise- eða Under-Bödker). Sjaldnast voru menn þessir neitt sérlega vel gefnir, en oft æði drykkfelldir. Rúmið leyfir ekki, að þeim séu gerð frekari skil að þessu sinni, þótt til séu margar skrítnar sögur um þá, en ef til vill gefst tækifæri til þess síðar.

Þau árin, sem ég var við verzlunina, var beykirinn íslenzkur maður. Hét hann Ingvar Friðriksson, Gíslasonar barnakennara, en aðstoðarmaður hans hét Sigurður, og var hann nefndur „Siggi fjórði“. Verður hans getið síðar.

Ingvar beykir smíðaði ógrynnin öll af laxatunnum, smjörkvartilum og þvottabölum, framúrskarandi iðjusamur og vandaður maður. Hann var bróðir konu hugvitsmannsins mikla, Hjartar Thordarson í Chicago, og tengdasonur Jóns Þórhallasonar trésmiðs í Hólmsbæ á Skúmsstöðum, föður séra Gísla á Mosfelli í Grímsnesi.

Á loftinu í húsi þessu voru geymdar vörubirgðir miklar, sem af var tekið til daglegrar notkunar. En í suðurenda þess og fyrstu hæð, var aðalskrifstofan við hlið einkaskrifstofu verzlunarstjórans.

Frammi í búðinni voru lyfin geymd, og mátti því m. a. segja, að þetta væri lyfjabúð allrar sýslunnar, sem hafði að geyma flest algeng lyf og sáraumbúðir. Framan af var læknis eigi að leita nær en austur á Móeiðarhvoli og síðar uppi í Laugardælum. Þar voru því lyfseðlar sjaldan sjáanlegir, sízt þeir, er gefnir voru út til þess að fá sér læknabrennivín. Þar þurfti ekkert „recept“ til.

Nyrzt á gólfhæð húss þessa, var brennivínsáman stóra, greypt inn í vegginn, með öðrum smærri tunnum og ýmsu ,,góðgæti“., er síðar verður að vikið.

2. Að sunnanverðu var vörugeymsluhús, nál. 52 álnir á lengd. Þar var harðfiskurinn geymdur, járnið, kaðlarnir og ullarsekkirnir, sem tilbúnir voru til útflutnings og ekki var rúm fyrir annars staðar.

Járnsmiðurinn, lengst af völundurinn Magnús smiður, – Magnús Þórðarson í Garðbæ, hélt til í austurenda húss þessa með hamar sinn og meitil að höggva járn, en þess á milli sat hann í smiðju sinni og smíðaði. Hann var þjóðkunnur maður á sinni tíð fyrir það, hver snillingur hann var í höndunum.

3. Að vestanverðu var einnig vörugeymsluhús, nál. 38 álnir á lengd, til móttöku á hrognum, lýsi o. fl. innlendum vörum, en til útbýtingar á korni, salti og tjöru o. fl. Uppi á lofti húss þessa voru geymdar allar kornvörur verzlunarinnar. Var korninu rennt í gegnum trérennur niður í stóra kassa, og var nafn hverrar korntegundar letrað sitt á hverja rennu og kassa. Þar var metaskál stór og mæliker.

Umsjón alla og ráð öll í húsi þessu hafði kornmaðurinn, er svo var nefndur. Sat hann þar jafnan sjálfur, smíðaði orf og hrífur handa bændum milli þess, að hann lét úti kornið, saltið og aðrar vörur og hafði strangar gætur á öllu, er þar fór fram. Kornmaður þessi hafði marga menn í sinni þjónustu. Það var Ásgrímur gamli Eyjólfsson á Litlu-Háeyri, bróðir þeirra Páls í Geysi og Einars, sem þar réð ríkjum. Þótti hann ráða öllu vel, enda var hann framúrskarandi reglusamur og hinn ágætasti mannkostamaður, sem í engu mátti vamm sitt vita. Strangur þótti hann og stórorður, ef ekki var allt í lagi. Ég var lengi samtíða Ásgrími, bæði við verzlunina og löngu síðar á Stokkseyri, þá er hann var blindur orðinn og örvasa gamalmenni, en aldrei heyrði ég hann mæla stóryrði nein eða styggðar til nokkurs manns. Hann andaðist hinn 16. marz 1894, 75 ára að aldri.

Yfir tjörunni réð Guðmundur gamli Steinsson, faðir Steins skipasmiðs, og mátti um hann segja, að „bik er bátsmannsæra“, og sómdi hann sér vel í stöðu þessari, eins og Steinn, sonur hans, við skipasmíðina.

4. Að norðanverðu var aðalgeymsluhúsið fyrir innlendan varning, 72 álnir á lengd. Þar voru innlendu vörurnar flestar vegnar, mældar og taldar: harðfiskur, ull, smjör og tólg o. m. fl.

Við innganginn í austurenda hússins voru tvær stórar metaskálar með 12 eitthundraðpunda lóðum hver. Áður voru þær með vætta-, lýsipunda -og punds-lóðum. Úr hverri skál gengu fjórar járnkeðjur, gildar vel, upp í enda vogarstangarinnar. Metaskálar þessar, sem rúmuðu klyfjar af heilli lest, 10-12 troðfulla ullarsekki, voru svo nákvæmar, að væri tveggjakrónupeningur lagður í aðra skálina, mátti vel sjá, að ,,mjótt er mundangshófið“, því að skálin hallaðist mjög til þeirrar hliðar, sem peningurinn lá í skálinni.

Um langt skeið var hinn alkunni sjógarpur, Jóhann Gíslason, sem nú er fiskimatsmaður hér í Reykjavík, við vogina.

Varð bæði mér og öðrum einatt starsýnt á Jóhann, er hann var að sveifla hinum þungu lóðum upp og ofan af skálunum. Gerði hann þetta hvíldarlaust allan vorlangan daginn,

eins og væri hann að leika sér með fífuhnoðra. ·

Yfirmaðurinn í húsi þessu, sem kallað var pakkhúsið, var um langt skeið Andrés, sonur Ásgríms gamla Eyjólfssonar og faðir Þorleifs pípugerðarmanns, en stjúpfaðir Sveinbjarnar Jónssonar hæstaréttarlögmanns. Andrés andaðist hinn 9. ágúst 1882, 42 ára að aldri.

Eftirmenn hans urðu þeir hvor eftir annan Hjörtþór Illugason, tengdafaðir Kristjáns Ó. Skagfjörðs stórkaupmanns og faðir Karels kaupmanns; hinn var Guðni Jónsson frá Skeiðaháholti. Allir höfðu menn þessir mikil og vandasöm störf á hendi: Þeir tóku á móti svo að segja allri innlendri vöru og erlendri, skrásettu þær í bækur sínar og höfðu auk þess yfirumsjón með allri vinnu utanbúðar, upp- og útskipun allri, og loks skráðu þeir nöfn allra þeirra, er í vinnu voru, vinnustundir þeirra að kveldi, en þeir voru oftast yfir eitt hundrað að tölu. Þetta umsvifamikla starf sitt leystu þeir af hendi með mikilli samvizkusemi, ráðvendni og reglu.

Uppi á loftinu í húsi þessu var ullin geymd, og sátu þar konur margar við að flokka ullina, tæja hana og tæta. Var hún að því loknu látin í stóra ullarsekki (,,balla“), er tóku 215, 235 og 252 pund hver eftir stærð. En stærð þeirra var þannig hagað og mismunandi vegna rúmsins í skipunum.

Formaðurinn á ullarloftinu var lengstum Þorsteinn Þorgilsson frá Rauðnefsstöðum, faðir Ólafs verkfræðings og þeirra systkina, góður maður og gegn, vel að sér um margt. Síðar var það Guðmundur Guðmundsson frá· Sandgerði, einnig ágætur maður.

Öll stóðu stórhýsi þau, er nú voru talin, umhverfis stórt ferhyrnt svæði, en á því voru kolin, bárujárnið og ýmsar þær vörur geymdar, er þoldu regn.

Vestur af húsunum var enn stærra svæði fyrir trjávörur allar og timbur, er til verzlunarinnar fluttist. Yfirmaðurinn þarna var um langan tíma Guðmundur Felixson frá Ægisíðu. Gegndi hann því starfi vel og með mikilli samvizkusemi.

Loks var næturvörðurinn, Jón Stefánsson á Skúmsstöðum, faðir Sigurðar sál. læknis í Færeyjum, allar nætur sem vörður yfir húsinu og timbrinu, trúverðugur maður mjög.

Inni á svæðinu milli húsanna (,,portinu“) var varðhundur vetur og sumar. Var hann látinn ganga laus á nóttum, en hafður í járnviðjum á daginn. Var ekki laust við, að kvenfólki og börnum yrði hverft við, er þessi stóri seppi kom fram í dyrnar á kofa sínum með gapandi ginið, óð að þeim og gelti hátt. Annars var hundur þessi meinlaus, en hann vissi vel, hver staða hans var.

Um svæði þetta lágu járnteinar neðanfrá sjó og inn í verzlunarhúsin. Á þeim gengu hlaðnir vagnarnir upp og ofan allan daginn, þegar skipin voru afgreidd, vörurnar fluttar inn og út í skipin, sem komu og fóru. Voru þau oftast 12-15 og stundum 16-18 talsins, hlaðin varningi frá henni og til hennar. Sem dæmi þess, hve innlendu vörurnar voru miklar, sem til verzlunarinnar fluttust árlega, má geta þess, að til þess voru mörg dæmi, að um 30 – þrjátíu – þúsund pund ullar kæmi inn á einum degi og tiltölulega jafnmikið af annarri vöru, saltfiski o. fl., t. d. harðfiski, hrognum og lýsi. Fluttist varningur þessi hvaðanæfa að, alla leið austan úr Öræfum (ullin), úr Grindavík og Suðurnesjum (fiskur o. fl.); meginþorri sjávarafurðanna kom þó úr nærliggjandi sveitum og veiðistöðvum, og æði miklar, ef vel fiskaðist, því að um eitt skeið gengu 18 skip frá Loftsstöðum og Tungu, 48 frá Stokkseyri, 28 frá Eyrarbakka og 34 frá Þorlákshöfn eða næstum 130 skip í öllum þessum veiðistöðvum, auk fjölda skipa í Grindavík og nokkrum í Selvogi og Vík í Mýrdal.

Auk húsakynna þeirra, er verzlunin átti og að framan er getið, átti hún og brauðgerðarhús eitt mikið. Stóð það skammt frá verzlunarhúsunum. Voru þar bakaðar allar þær tegundir brauða, sem tíðkuðust á þeim tímum, og sumar aðrar, er ég hef aldrei séð hér. Meðal brauðtegunda þessara voru hinir eftirsóttu „kammerjunkere“ og vínarbrauðin góðu, sem annáluð voru fyrir gæði og engu minni en þau brauð, þessarar tegundar, eru hér nú, en kostuðu þó eigi meira en 5 aura hvert þeirra. Efnið í þeim var hið bezta, sem völ var á, m. a. smjör frá Kaldaðarnesi, en hvorki ein ögn af svínafeiti eða smjörlíki né heldur einn dropi af neinni olíu, enda lét séra Eggert Sigfússon á Vogsósum svo um mælt, að „Vínarbrauðin á Bakkanum væri hið bezta, sem fyrirfyndist undir sólinni“, og vissi hann oftast, hvað hann sagði í þeim efnum sem öðrum. Brauðvörur þessar og ýmsar aðrar keyptu menn héðan úr Reykjavík, enda voru þær miklu betri þar en hér og ódýrari. Einkum voru rúgbrauðin miklu betri, eða það fannst okkur, sem stunduðum sjóinn. þar eystra og einnig hér á Seltjarnarnesi. Þvílík brauð hefur enginn bragðað síðan.

Bakarameistarinn á Eyrarbakka var um 30 ára skeið hinn góðkunni N. C. Bach, orðlagður gæðamaður, gestrisinn mjög og vinmargur meðal innlendra manna og erlendra. Bach fór til Kaupmannahafnar og andaðist þar 1930, áttræður að aldri. Aðstoðarmaður hans var Jón Jónsson, ávallt nefndur Jón bakari, ágætismaður hinn mesti. Er hann einnig andaður um líkt leyti og hinn gamli og góði húsbóndi hans, Bach bakari, og í hárri elli.

Voru þeir báðir og hvor um sig svo ástundunarsamir og iðnir, að segja mátti, að þeir léti sér aldrei verk úr hendi falla eða gæfi sér nokkra hvíld, enda höfðu þeir naumast við að fullnægja eftirspurninni, þótt bakað væri nætur sem daga, einkum á vetrarvertíðinni.

Vörugæðin á Eyrarbakka voru óviðjafnanleg og flestar vörur ódýrari en t. d. hér í Reykjavík. Sérstaklega sakna margir þeirra, er til þekktu hér og þar, vörugæða þessara á flestum sviðum.

Loks átti verzlunin stórt íshús, er í var fryst kjöt, fiskur og síld; var það ávallt fullt af vörum þessum og ýmsum öðrum, er geymdar voru fyrir almenning, en síld kom þangað eigi fyrr en eftir aldamót, því að hún var eigi notuð til beitu fyrr þar eystra en um það leyti, heldur hrogn á vetrarvertíð, en ljósabeita og fjörumaðkur eða öðu-skelfiskur á öðrum tímum ársins. Guðmundur Sigmundsson, síðar kaupmaður hér í Reykjavík, var íshúsvörður á Eyrarbakka, þá er ég var þar, hinn trúverðugasti maður og skylduræknasti.

Skip og landfestar

Hafnleysið við Suðurlandsundirlendið allt gerði alla aðflutninga til og frá torvelda mjög. Eyrarbakkahöfn var ótrygg, svo að til vandræða horfði oft og einatt, og hafa þurfti sérstakan útbúnað til þess að forða skipunum frá strandi. Sjávargangurinn var svo stórfelldur, að flytja varð verzlunarhúsin úr einum stað á annan, unz öflugur sjógarður var byggður þeim og byggðarlaginu til verndar; stendur hann enn í dag, en hans er eigi jafnmikil þörf nú sem áður sökum þess, að sandurinn hefur hlaðizt svo upp að honum, að sjórinn mæðist því meir sem hallinn og aðdragandinn er meiri.

Bakkaskip voru þau nefnd, skipin, sem þangað sigldu. Hin fyrstu þeirra komu um sumarmálin eða milli· þeirra og vertíðarlokanna (11. maí). Var þá oft lítið um vörur eftir allan veturinn og vertíðina, því að þangað hafði ekkert skip komið frá því um höfuðdag sumarið áður. Menn voru því orðnir langeygir eftir skipi, og var hverjum þeim, er gæti sagt hafnsögumanninum frá því, að hann hefði fyrstur séð Bakkaskip, heitin verðlaun fyrir það, í fyrstu ein spesía, en síðar 5 eða jafnvel 10 krónur. Var það nefnt sjónarvætti, og þótti það frami mikill og fjárvon nokkur að verða fyrir því happi að koma auga á fyrsta skipið, tilkynna það og njóta þannig sjónarvættisins. Það var happdrætti þeirra tíma og þótti gott. Því var það, að menn lögðu á sig vökur um nætur, úr því að sumarmálum leið og lokum. En svo bar það vitanlega oft við, að skip það, er sást á hafi, var ekki Bakkaskip, en þótt svo væri, var kálið eigi úr ausunni sopið með því að sjá það, því að enn morraði það úti við hafsbrúnina að sjá 2-3 vikur án þess, að viðlit væri til að það kæmist inn í höfnina sökum brims eða óhagstæðrar vindstöðu. Vindurinn varð að standa af hafi og helzt af suðvestri, svo að fært þætti að sigla skipinu inn. Oft var það komið inn undir brimgarðinn eftir margra daga sveim vestur og út af Vestmannaeyjum eða Hafnarbergi, en varð svo að leggja til hafs aftur að svo komnu. Sömu búsifjum urðu skip þau að sæta, er inn á höfninni lágu og tilbúin voru til útsiglingar, því að til þess þurfti bæði brimleysu og hæga landnorðurs-átt, og oft komust þau ekki út fyrr en mörgum dögum síðar, þótt ferðbúin væri. Var þetta að vonum skapraun mikil hafnsögumönnum og skipstjórum sem og öðrum, er hlut áttu að máli.

Vegna hafnleysisins settu vátryggingafélögin verzluninni þau skilyrði, að skipin yrði að vera tilbúin til utanfarar innan ágústmánaðarloka, ella hækkuðu vátryggingargjöldin gífurlega. Væru þau lengur, kostaði það verzlunina allmikla upphæð í dagpeningum (,,Liggedagspenge“) eða öðru nafni legudagafé, en laus var hún allra mála, ef lestum varð lokað innan hins tilsetta tíma. Hins vegar hafði það engin áhrif, hvað þetta snerti, þótt skipin lægi vikum saman á höfninni og biðu byrjar.

Sundið, sem skipin fóru um inn og út, heitir Bússa, en hliðhallt við hana og að austanverðu er þó aðalsundið, Einarshafnarsund, og koma þau saman að innanverðu, áður en þverbeygt er inn og austur á lónið, sem skipin lágu á við festar sínar, en þar gátu aðeins legið þrjú skip fest samtímis. Áður fyrrum varð að svínbinda skipin þannig, að frá skipinu lágu tvær festar, sín frá hvorum kinnungi skipsins, og aðrar tvær frá hvorri hlið skutarins út í skerin, sem liggja

á báðar hliðar, land- og sjávarmegin. Brysti önnur hvor festin þeim megin, sem brimið mæddi mest á, einkum sú er í landsuðursáttina vissi, lá hún svo þungt á, vegna brimsins og straumsins í vesturátt, að hvorttveggja samfara ofsaroki olli því, að eitthvað varð undan að láta, festarnar hrukku í sundur, sem fífukveikur væri, og svo hver af annarri, og var þá eigi lengur að sökum að spyrja: Skipið rak á land og óðfluga mjög upp á hellurnar fyrir innan, en þangað var aðeins steinsnar og á þeim stórveltubrim. Menn og skip voru því ávallt í mikilli hættu, ef skipin staðnæmdust þar og ræki eigi lengra upp á sléttan sandinn. Sjávargangurinn er jafnan mestur um háflæðið, og vildi þá oft svo til, að skipin rak yfir hellurnar alla leið til lands án þess að taka niðri eða brotna.

Til þess að koma í veg fyrir slíkan voða sem þann, að skipin slitnuðu frá festum, voru þau síðar látin liggja við svonefnt sveifluakker (,,Svingl“), og var nú svo um búið, að tvær festar voru látnar liggja frá skerjunum land- og sjávarmegin eins og áður, en nú með botninum út í mitt lónið og þar, sem skipið átti að liggja, og voru þær festar í járnhring einn, er lá þar í botninum, en frá honum lá síðan öflug festi upp í framstefni skipsins, sem nú snerist í sigurnagla í miðju hringsins. Tók nú brimið, vindurinn og straumurinn miklu minna á skipið en áður, því að nú snerist það eftir vindi og straumi, jafnframt því, sem það lyftist upp við hvert öldusog, er undir það reið, eins og lægi það fyrir fjaðrakrafti, stillt og rólega, hvernig sem sjórinn hamaðist á því og umveltist í kringum það, enda rak skipin eigi upp eftir það.

Skipstjóri sá, er tók upp nýbreytni þessa, var danskur, Christiansen að nafni. Skip hans hét „Anne Louise“. Þótt maður þessi forðaði mörgum manninum frá að falla í faðm hins kalda úthafs og mörgu skipinu frá því að lenda á Hellunum, átti það þó fyrir honum sjálfum að liggja að taka út af nefndu skipi sínu í Eyrarbakkaflóa í blæjalogni og bezta veðri, sökum þess að hann gekk um þilfarið með báðar hendur í vösum og gætti sín ekki fyrir báru nokkurri, er undir skipið reið. Skip hans komst til hafnar, en strandaði í þessari sömu ferð, er það flutti saltfarm til Þorlákshafnar. Skipstjóri þessi hafði um mörg ár siglt til Eyrarbakka, en nú fórst bæði hann og skip hans í sömu ferðinni. Christiansen var aldraður maður, stilltur vel og gætinn, tígulegur á velli, með hrafnsvart hár, dökk augu og hinn fyrirmannlegasti.

Skipunum fagnað

Þegar vissa var fengin fyrir því, að skip, sem á siglingu var úti fyrir, væri Bakkaskip og útlit fyrir, að það kæmist inn, var lóðsflaggið dregið að húni á vestari burst vörugeymsluhúss þess, er var að sunnanverðu við búðina, enda var það samlita flaggi því, er skipið hafði uppi, hvítt, með fimmblaðaðri rauðri stjörnu í miðjunni. Þegar svo skipið var lagzt við festar á höfninni og allt svo vel um búið sem unnt var, gekk skipstjórinn á land, með skipsskjöl sín undir hendinni og var þá skrifstofuflaggið (Dannebrog) að húni dregið á syðri burst aðalverzlunarhússins og jafnframt var þrem fallbyssuskotum hleypt af til þess að heilsa hinum kærkomna gesti, skipinu, sem nú var komið heilu og höldnu til ákvörðunarstaðar síns. Á sömu lund voru skipin einnig kvödd á haustin, þegar þau lögðu frá landi, svo og skip þau, er eigi áttu að koma oftar á því sumri. Flest komu skip þessi ár eftir ár og sum þeirra tvisvar eða þrisvar á sumri. Stærð þeirra var frá 100-~00 smálestir, og man ég enn flest nöfn þeirra, t. d. Thor, Terpsicora, Kirstine, Nils, Elbo Fredericia, Zephyr o. fl.

Eimbáturinn Oddur

Auk hinna erlendu skipa, sem áður eru nefnd, hafði verzlunin einnig milliferðabáta í förum með ströndum fram, austan frá Vík í Mýrdal til Grindavíkur, Keflavíkur, Hafnarfiarðar og Reykjavíkur. Voru sumir þeirra vélbátar, aðrir eimbátar eða seglskip, og voru hinir fyrr nefndu einnig notaðir til þess að draga skipin inn á höfnina og út af henni.

Einn þessara báta var seglskipið Den lille, en merkastur þeirra var eimbáturinn Oddur. Hann átti að vísu „ekki að heita Þórarinn“, heldur danska nafninu Pil. En nú vildu menn, að hann fengi íslenzkt nafn, og var því málið tekið til rækilegrar athugunar í því skyni að þýða nafnið Pil á verulega gott íslenzkt mál, og varð úr því nafnið Oddur.

Eimbáturinn Oddur var nál. 36 smálestir að stærð og svo treggengur, að ég hef aldrei þekkt annan eins silakepp, enda valtaroki hinn mesti og sjókæfa meiri en svo, að því sé með orðum unnt að lýsa. Reyndi ég hann sjálfur að öllu þessu, jafnvel í bláhvítalogni og rjómasléttum sjó.

Skipstjórinn á Oddi var um langt skeið hinn þrekvaxni sjógarpur Christiansen, og vélstjóri var Feldtmose, og voru þeir alkunnir bæði þar eystra og í Hafnarfirði, því að þar hafði Oddur vetrarlægi um mörg ár. Eimbáturinn Oddur hafði öll björgunartæki innanborðs, og lá hann hér á Reykjavíkurhöfn á mannskaðadaginn mikla, 7. apríl 1906, en því miður hafði enginn skipsmanna hugmynd um neitt það, er þá var að ske inni við Viðey.

Bátar þessir, Den lille og Oddur, fluttu ýmsar vörur, innlendar og erlendar, til og frá verzluninni á Eyrarbakka, til ýmissa staða og frá þeim, einkum Grindavíkur, enda átti verzlunin útibú þar, saltbirgðir miklar og fisktökuhús í Garðhúsum. Á sumrum var þar ávallt margt manna frá verzluninni til þess að taka á móti fiskinum og sérstakur maður á vertíðinni til þess að mæla vermönnum saltið eins og í Þorlákshöfn. Voru það lengstum Ásgrímur Eyjólfsson (í Þorlákshöfn) og Ísak Jónsson (í Grindavík). Verzlunarhús þau, er nota þurfti fyrir vörur þessar, átti verzlunin, og voru þau bæði góð og stór, a. m. k. Þorlákshafnarhúsin.

 

Leave a Reply