16-Ferðalögin

Ferjur og flutningar

Langir vegir og vondir, svo og hafnleysið við suðurströnd landsins, alla leið austan frá Hornafirði og vestur á Reykjanes, höfðu meiri erfiðleika í för með sér en svo, að sambærilegt væri við nokkur önnur héruð landsins. Þá var engum vagni hægt heim að aka, engin brú yfir neina á, enginn lagður vegur og enginn bíll. Ekkert af þessu var þá til á landi hér.

Þeir, sem nú fara um Suðurlandsundirlendið, en eigi hafa alizt þar upp eða þekkja þar til neins, vita nú eigi eða skilja, hvernig þar var umhorfs eða ferðum hagað fyrr á tímum, og þarf eigi lengra til að rekja en svo sem það var fyrir rúmum mannsaldri, áður en brýrnar voru komnar á mestu stórárnar, Ölfusárbrúin vígð 8. sept. 1891, Þjórsárbrúin 8. júlí 1895 o. s. frv. og bílarnir voru að koma 1913. Menn þessir vita lítið um það, hversu mikla karlmennsku, áræði og kjark til þess þurfti oft á tíðum að komast leiðar sinnar, þótt eigi væri um að ræða lengri leið en svo, að nú má ljúka henni á einni stund eða skemmri tíma. Eigi að síður þurfti að reyna að leiða þær til farsællegra lykta, og það tókst oftast vonum framar. En þrautalaust var það ekki.

Til verzlunarinnar á Eyrarbakka sóttu næstum allar sveitir hinna þriggja stærstu og fjölbyggðustu sýslna landsins nauðsynjar sínar, sjaldnast þó oftar en einu sinni eða tvisvar á ári, á lestunum vor og haust. Vorlestirnar voru ávallt umfangsmeiri og mannfleiri. Bændurnir fluttu afurðir búa sinna á hestum til kaupstaðarins, ull, smjör, tólg og skinn o. s. frv. og erlendu vöruna heim aftur ásamt ýmsum varningi öðrum, er þeir fengu hjá viðskiptamanni sínum, og verður þess síðar getið. Ökuvagnar og aktygi voru óþekkt farartæki. Hestarnir voru einu flutningatækin að og frá á landi, en róðrarbátar og skip á sjó. Ferðalögin voru því bæði löng og erfið, enda áttu menn yfir mörg vötn að sækja og ár, sem allar voru óbrúaðar og illar yfirferðar.

Þannig voru þeir, sem lengst voru að komnir, Austanmenn úr sveitunum austan Mýrdalssands, sjaldan skemur en hálfan mánuð og þar yfir í slíkum ferðalögum.

Í vestari hluta Skaftafellssýslu og Rangárvallasýslu allri urðu menn, sem fóru í skreiðarferðir til Þorlákshafnar, Grindavíkur og Suðurnesja, að fara yfir stórárnar Þjórsá og Ölfusá, stundum báðar sama daginn. Voru þeir einatt með langar lestir og urðu að sundleggja hestana, hvernig sem á veðri stóð, í byljatíð og frosti og þótt ísskrið væri í ánum. Má nærri geta, hvernig menn og málleysingjar hafi verið útleiknir eftir slíkt volk, hlífðarlausir að kalla, þreyttir og oft aðfram komnir af svefnleysi. Stígvél og olíuborin föt voru þá óþekkt með öllu. Klofháir eða aðeins hnéháir skinnsokkar voru aðal-vatnsverjurnar í ferðalögum.

Lögskipaðar ferjur voru á stærstu ánum, og voru þær tíðfarnastar yfir Þjórsá á eftirtöldum stöðum: í Pörtunum, á Ferjunesi, Egilsstöðum, Króki og Hrosshyl hjá Þjórsárholti, svo og á Sandhólaferju, er oftast var notuð. Yfir Þjórsá mátti og ríða á ýmsum vöðum, t. d. Nauteyrar-, Haga- og Gaukshöfðavaði, en þau munu naumast hafa verið skipgeng eða neinir bátar verið við þau hafðir og því eigi verið lögferjur neinar yfir þau. Við Hvítá og Ölfusá voru helztu lögskipuðu ferjurnar við staði þessa: Óseyrarnes, Kotferju, Laugardælur, Öndverðarnes, Bótina og Iðu.

Mest var umferðin yfir á þessa á tveim fyrsttöldu stöðunum, Óseyrarnesi og Kotferju. Á ýmsum öðrum stöðum var og ferjað yfir Ölfusá, t. d. á milli hverfa, þ. e. Arnarbælis í Ölfusi og Kaldaðarness, í Öndverðarnesi og Arnarbæli í Grímsnesi, Kiðjabergi og Auðsholti í Biskupstungum, en lögferjur munu engar hafa þar verið. Flestar lögðust ferjur þessar niður, eftir að brýr komu yfir árnar. Jafnvel í Óseyrarnesi er nú engin fleyta til að ferja menn yfir ána, þótt þess væri full þörf vegna Þorlákshafnar.

Fyrir 60-70 árum var ferjutollurinn í Óseyrarnesi þessi:

Fyrir að flytja lausgangandi mann 25 aurar. Fyrir að flytja mann og hest 35 aurar.

Fyrir að flytja mann, hest hans og klyfjahest 50 aurar. Væri fleiri en einn áburðarhestur með í ferðinni, var það kölluð lest.

Fyrir lamb í rekstri varð að greiða 4 aura, á í rekstri 6 aura og sauð í rekstri 8 aura.

Fyrir að skipleggja stórgripi, hesta og nautpening, varð að greiða eina krónu fyrir hvert þeirra. Gjald þetta, ferjutollurinn, var oftast miðaður við fiskvirði, og var hann oftast nokkuru lægri við ferjurnar við Þjórsá en við Ölfusá, enda var meðalalin oftast metin nokkru lægri í Rangárvallasýslu en Árnessýslu.

Þegar Eggert Ólafsson ferðaðist um landið 1752-1757, „var ferjutollurinn 1 alin, 2 fiskar eða 4 skild. specie“, fyrir hvern mann og jafnmikill fyrir hestburðinn eða tvo bagga. Var hann ýmist greiddur í vörum (landaurum) eða peningum, og fór greiðslan oftast fram á ferjustaðnum, a. m. k. væri um vörur að ræða, sem tíðast voru afurðir búa þeirra, er heima áttu í fjarlægum sveitum: smjör, tólg, skinn, kjöt og vaðmál og jafnvel tilbúinn fatnaður, sokkar, peysur og vettlingar, er menn þóttust helzt mega án vera.

Eins og áður er að vikið, var varningur þessi allur metinn til verðs eftir verðlagsskrá og á landsvísu, í fiskum og álnum, og síðan breytt í peningaverð, miðað við meðalalin þá, er gilti í sýslu þeirri, þar sem greiðslan fór fram. Meiri háttar bændur, sem mikið þurftu að flytja og oft voru í ferðalögum, höfðu þó flestir fastan viðskiptareikning við ferjubóndann og jöfnuðu þau við hann venjulega einu sinni á ári.

Þegar svo bar undir, að flytja þurfti menn og fénað yfir árnar á helgum dögum sem virkum, vissi ég til þess, að þeir gáfu ferjubóndanum oft drjúgan skilding, þótt vitanlega væri ferjutollurinn hinn sami þá daga sem endrarnær. Tekjurnar af ferjunni í Óseyrarnesi voru taldar vera álíka miklar og allar þær tekjur, er Árnessýslu bar að fá á ári hverju frá bændum hennar og verzlunum, enda var það engin nýlunda, að frá morgni dags á sunnudögum til hádegis færðu ferjumennirnir húsbændum sínum 80 kr. í lófann. Var þetta mikið fé í þá daga og allgott verkamannakaup, jafnvel þótt 4 menn væri við ána þennan stutta tíma. Óseyrarnes mun þannig hafa verið ein hinna beztu innnytjajarða sýslunnar, enda voru bændurnir þar um langt skeið auðugustu menn hennar, dugandi vel og hagsýnir.

Árið 1880 fluttist Árni sýslumaður Gíslason frá Kirkjubæjarklaustri á Síðu til Krísuvíkur. Lét hann þá um haustið reka flest sauðfé sitt, samtals rno7 fjár, þangað. Var fjárrekstur þessi allur fluttur yfir Ölfusá á ferjustaðnum í Óseyrarnesi. Ferjutollurinn fyrir flutning þennan allan var talinn að hafa verið 7 kindur fullorðnar á ýmsum aldri og mismunandi að gæðum.

Við ferjuna í Óseyrarnesi var venjulega notað eitt skip eða tvö, en nú voru þau 4 í förum. Stóð fjárflutningur Árna sýslumanns yfir frá miðjum morgni til miðmunda þennan dag, án þess nokkurt hlé yrði á eða menn gæfi sér tíma til að fara heim um matmálstíma. Fullum þremur hundruðum fjár fargaði Árni sýslumaður heima fyrir að Kirkjubæjarklaustri, og 36 kindur, mest sauði, lét hann reka til slátrunar í Reykjavík. Var fé þetta flutt yfir Ölfusá á Kotferju. Fjáreign Árna sýslumanns hefur því verið 1750 um haustið 1880, áður en flutningar fjárins hófust og förgun þess. Hefur sonur sýslumannsins, Skúli læknir frá Skálholti, sagt mér, að tala þessi muni vera rétt.

Obbinn af öllu því fé, sem til Krísuvíkur var rekið, fórst á ýmsa lund og lifði ekki veturinn af. Ódæma dýrbit, en mest þó strok mun hafa valdið því, að fellir fjárins varð svo gífurlegur. Féð var óhagvant, en heimþráin svo mikil, að það hikaði ekki við að setja sig í árnar, en það var ekkert heimatak, og synda yfir vötnin, t. d. Ölfusá í Óseyrarnesi, sem er 300 faðmar á breidd, þar sem hún er mjóst á ferjustaðnum, enda fórst féð þar hópum saman. Ferðalagið var eigi einungis langt, heldur og strangt, á fjórða hundrað kílómetrar, auk allra þeirra krókaleiða, er féð hefur orðið að fara til þess að leita fyrir sér með að komast yfir árnar og vötnin á hinni löngu leið sinni. Eigi er þess getið, að ein einasta kind, sem þannig flýði heim til átthaga sinna, hafi villzt, en nokkrar þeirra munu hafa lent í gjám nálægt Geitafelli, þær, sem urðu svo norðarlega fyrir, eftir að þær tóku stefnuna austur frá Selvogi. Aðeins voru það nál. 60 kindur, sem komust austur undir Eyjafjöll, en voru handsamaðar þar eða þær höfðu gefizt upp af vosbúð og þreytu. Einungis einn sauður og dilkær með lambi sínu komust alla leið til hinna sárþráðu átthaga sinna, að Kirkjubæjarklaustri á Síðu.

Örlög fjár þessa voru dapurleg mjög, og sannast í því efni það, sem sagt er um oss mennina og heimþrá vora á stundum, að römm er sú taug o. s. frv.

Fjárflutningar þessir voru hvorki né eru neitt einsdæmi eða óvenjulegur viðburður, en hann sýnir þó sem jafnan og það ljóslega, hversu harðýðgislegri og hlífðarlausri meðferð margur varnarlaus málleysinginn verður að sæta af hendi vor mannanna og það jafnvel enn í dag, þótt eitthvað kunni að hafa breytzt til batnaðar í því efni.

Þess var áður getið, að í Óseyrarnesi er Ölfusá erfið mjög og oft ill yfirferðar, einkum á vetrum, þegar ísskrið er í henni og jafnframt hafrót í sjónum fáum föðmum framan við mynni hennar. Þegar íshrönglið safnast þar saman, er áin hvorki árgeng né skiplæg langtímum saman, unz hún hefur rutt öllu af sér með útfallinu og undir fjöruliggjandann, svo að bíða verður eftir henni eins og stálmandi kú, kominni að burði. Var það oft kulsamt mjög, að standa í Eyrinni og bíða eftir því, að áin hafnaðist vel.

Það var því síður en svo vandalaust verk að vera ferjumaður í Óseyrarnesi eða á Sandhólaferju, þegar stórir fjárrekstrar komu að ánni eða þegar margir tugir vermanna þyrptust út í bátana, en það bar oft við í Óseyrarnesi, er sjómenn vildu komast yfir ána í myrkri og vondu veðri og vissu eigi, hvort þeir ættu von um að komast heim til sín um bænadaga eða páska eða yrðu að snúa við og halda til Þorlákshafnar aftur. Hafnarskeið var þeim þó oft erfið leið, því að sandurinn er langur og þungur yfirferðar, nema gengið verði fjöruborðið eða gljárnar, ef áin er lítil og útfallið mikið.

Sums staðar, t. d. á Sandhólaferju, urðu ferjumennirnir og jafnvel ferðamennirnir líka að vaða langar leiðir landa á milli yfir eyrar og grynningar með þyngslabagga í fangi sér eða á baki út í bátana og úr þeim, hverju sem viðraði, votir upp í mitti, og síðan að róa hlöðnu skipi og stóru gegn straumi og vindi og loks, þegar yfir um var komið, að elta og handsama hesta þá, er komu af sundi titrandi úr helköldu vatninu, ísskriðinu og aurbleytunni, leggja á þá reiðtygin, reiðingana og baggana, unz lengra væri haldið til næsta áningar- eða áfangastaðar, fansa þar trússin og tjalda tjöldum sínum á móabarði eða mosaþembu einhverri eða mýri. Áningarstaðirnir voru eins og ferjurnar lögskipaðir. Máttu menn því eigi æja lestum sínum annars staðar, svo að eigi yrði örtröð að, á engjum og haglendi manna, er land áttu nærri alfaravegum. Það þótti ókostur á jörðum, ef þær lágu mjög nálægt þjóðbraut. Áningarstaðirnir voru til þess settir að vernda menn fyrir átroðningi og yfirgangi ferðamanna. Annars voru það fastar venjur og gamlar, sem réðu því að mestu, hvaða áningarstaði skyldi nota og ná til þann og þann daginn. Fór það að mestu eftir ástæðum ferðamannanna sjálfra og því voru áningarstaðirnir svo margir og nærri hver öðrum, að menn gæti valið um, hvern þeir vildi nota.

Menn þeir, er til þess voru valdir að ferja fólk og fénað yfir árnar og vötnin, langar lestir, mikinn varning og vandasaman flutning, máttu engir arlakar vera eða aukvisar. Til þeirra starfa voru ávallt valdir víkingar einir, harðsnúin snöfurmenni, sem ekkert létu á sig fá, hvorki vosbúð né vökur, erfiði né illa aðbúð á ýmsa lund. Verður því eigi ofsögum af því sagt, hve vasklega og vel þeir reyndust í svaðilförum þessum. Var það að vonum, því að þeir höfðu alizt upp og unað hag sínum þar bezt, er við ægilegustu náttúruöflin var að etja, brimið við strendur Suðurlandsundirlendisins. Það var skólinn þeirra, og þar lærðu þeir lífsspeki þá, er þeim átti að duga og dugði fyrir allt lífið: vinnusemi, iðni, trúmennska og ráðvendnin sú, að hafa ávallt hag húsbænda sinna og vinnuveitenda frekar fyrir augum en sinn eigin stundarhagnað. Prófraunir sínar í þessum efnum stóðust þeir vel, og sumir þeirra settu met í þeim. Er nú fátt eftir af þessum djarflyndu dugnaðarmönnum. Flestallir eru þeir nú ferjaðir yfir „móðuna miklu“, m. a. Magnús gamli Friðriksson í Selparti (Pörtum), Pálmi Einarsson frá Þjóðólfshaga og Rauðalæk, Þorkell Þorkelsson frá Óseyrarnesi, sá er fyrir sjóhrakningnum mikla varð 9. marz 1883, Guðmundur hreppstjóri bróðir hans, og faðir þeirra, Þorkell gamli Jónsson í Óseyrarnesi, Bjarni gamli Hannesson óðalsbóndi þar, Einar Guðmundsson smiður og kona hans, Ingileif Símonardóttir, er síðast bjuggu við Bakkastíg 4 hér í Reykjavík, sem hvort um sig eða bæði saman voru aðalferjumennirnir frá Grími móðurbróður mínum Gíslasyni í Óseyrarnesi um langt skeið, svo og Þórný Snæbjarnardóttir, er varð kona sægarpsins mikla, Einars Einarssonar frá Bugum við Stokkseyri. Voru þær Ingileif og Þórný taldar karlmannsígildi hvor um sig, áræðnar vel og hugrakkar. Enn eru þó nokkrir hinna þekktustu og þrautseigustu þessara manna á lífi, m. a. Jón Jónsson frá Hlíðarenda, föðurbróðir minn, sem nú er kominn á 94. aldursár sitt og býr við Grettisgötu 63 hér í bænum, furðu ern enn og frámunalega léttur í skapi og spori; Ólafur Guðmundsson frá Sandhólaferju, nærri hálfáttræður, til heimilis að Svanavatni við Stokkseyri, er var talinn meðal harðfengustu og hraustustu manna austur þar, glaður og góðlyndur í viðtali, kraftajötunn hinn mesti og síúðrandi, svo og Bjarni fiski matsmaður, sonur Gríms í Óseyrarnesi, o. fl.[note]Síðan þetta var ritað (1943), hafa þeir frændurnir, Jón ,Jónsson frá Hlíðarenda og Bjarni Grímsson frá Stokkseyri, báðir látizt. [/note]

– Hér var ekki um að ræða neina augnaþjónustu hjá konum þessum eða körlum, enga hyskni né svik við húsbændur sína eða aðra, heldur áreiðanleik í orðum og athöfnum, enda nutu þau öll verðskuldaðrar virðingar og vináttu allra góðra manna, og öll komust þau vel áfram í lífinu eftir það, að þau létu af þessum störfum og tóku sjálf við mannaforráðum.

Þótt hrannaskaflarnir og ísskriðið í ánum, sem ég hef áður að vikið, væru oft hættulegir farartálmar og ærið erfiðir viðureignar, var þó manngrúinn, er að ferjunni ruddist, enn hættulegri, enda bar það oft við, að bátarnir fylltust svo í einni svipan, að við ekkert varð ráðið. Lá þá oft nærri, að menn og skip færi í kaf. Til þess að afstýra yfirvofandi hættu var þá hið einasta ráð til: að hafa öflugt barefli í höndum og berja á báða bóga hvern og hvað sem fyrir var og ýta ekki frá landi, fyrr en mennirnir allir væri komnir í land aftur og skipin þurrausin. Furðu sjaldan varð þó slys að þessu eða af ofhleðslu skipanna við árnar, og var það dugnaði og stjórnsemi ferjumannanna sjálfra að þakka, hversu vel úr rættist oft á tíðum. Þó er þess getið, að þegar séra Markús Sigurðsson, prestur til Reynis og Höfðabrekku, var að flytja sig og búslóð sína árið 1800 að Mosfelli í Mosfellssveit, hlekktist ferjuskipinu svo á við ferjuna í Óseyrarnesi, að kona prestsins og sex menn aðrir fóru í ána og drukknuðu. Presturinn sjálfur komst af, svo og meðhjálpari hans, Ólafur frá Steig í Mýrdal, vinnumaður prestsins og annar ferjumaðurinn. Var hér ofhleðslu um að kenna, og er fátt varhugaverðara við hleðslu opinna báta og skipa en mikill mannfjöldi, ofhleðsla í asfiski, við skelfisksfarm og heyflutning. Sé ágjöf nokkur, er hún svo sein að síga niður í sogin, að ausið verði og verður þá hver báran, sem inn í bátinn fer, til þess að auka enn meir á hleðsluna, svo að ofhleðsla verður, án þess að hún sé auðsæ fyrirfram eða athuguð fyrr en um seinan. – Þegar línuveiðarinn Örninn frá Hafnarfirði fórst fyrir fám árum við Norðurland, var það álit sjófróðra manna, að ofhleðsla hefði valdið þessu dapurlega slysi. Það er og alkunna, að einatt eru síldveiðaskip offyllt svo, að furðulegt má teljast, að ekki skuli oftar hafa hlotizt stórslys af. – Kapp er bezt með forsjá.

Reiðingar, reiðver og annar útbúnaður

Reiðingar Skaftfellinga, einkum í austurhluta Skaftafellssýslu, voru melriðnar dýnur eða fóðraðar meljur, framanundirlög ýmist melriðin eða úr góðu reiðingstarfi. Meljurnar þóttu mjög útgengileg vara, og kostaði hver þeirra 20 fiska og jafnvel meira, ef vel voru fóðraðar með einskeftu eða vaðmáli.

Klyfberar voru úr góðum reka viði og klakkar ýmist úr eik eða beini. Voru þeir nefndir hellir, sbr. ,,böllinn í berandanum“, en berandinn var klyfberinn. Þrjár melgjarðir fylgdu hverjum reiðingi og klyfberagjarðsylgjur á hverjum gjarðarenda, oftast úr horni eða beini. Gjarðirnar voru flestar með svörtum langröndum, samriðnum við melinn. Þornin í sylgjunum voru úr járni, eiri eða kopar. Sköffin, þ. e. móttökin, voru úr leðri og þornfarsgötin því voðfelldari og mýkri en t. d. látúnshringir.

Þá voru og hærusekkirnir hin mestu þing, ofnir úr hrosshárshærum með dökkum bryddingum og langröndum, fyrirbönd úr taglhári og hornsylgjum til móts við hvert þeirra. Voru hærusekkir þessir vatnsheldir vel, enda unnir úr fax og taglhári, tvinnuðu eða þrinnuðu. Þóttu þeir því betri sem þeir voru fjöltenntari og röndóttari. Það prýddi lestina og þótti áferðarfegurra en ef einlitir voru, fallegri og sterkari en aðrir sekkir. Verð þeirra var20-30 fiskar eða jafnvel meira. Því fegurri og föngulegri þótti lestin sem hærusekkirnir voru litföróttari og samstæðari að gerð og stærð.

Beizlin voru úr fléttuðu hrosshári tvísnúnu eða þrinnuðu og járnmél með tveim járnum, er komu saman í munni hestsins og léku þar eins og á ási, svo að hesturinn yrði eigi sár í munnvikum eða á tungu. Beizlið var oftast tekið út úr hestinum og af höfði hans, væri áð eða hann látinn í haga. Við klyfberabogann var legillinn bundinn með vænni ól eða snæri.

Þar sem oft var um langferðalög að ræða, höfðu menn flesta þessa hluti, svo sem reiðinga, reipi, gjarðir og skeifur með sér til vara, ef eitthvað skyldi bila eða týnast. Þá var og sjálfsagt að hafa ýmsa aðra nauðsynlega hluti með hverri lest, svo sem vænan klaufhamar, naglbít og varanagla nóga, ef járna þyrfti hestana að nýju eða laga undir þeim. Loks var sjálfsagt að hafa með sér blásteinsvatn eða eirlög og fituborna tjöru eða tólg, ef hestar meiddust eða urðu baksárir, heltust af blóðjárningu eða hófur rifnaði.

Þá var það einn hlutur enn, sem þótti ómissandi lausríðandi mönnum og þeim, er með lestir voru, en það var hankajárn. Yrði hestur holbólginn eða hóstsjúkur, var hankajárninu stungið í gegnum hes hestsins eða herðakampinn og hrosshársflétta dregin í gegn og hnýtt saman á endunum. Var svo úr þessu hanki eða hönk, sem dró gröft og vessa úr sárinu. Mun hin svonefnda hrossalækning eiga nafn sitt að rekja til þessa, og var hún oft svo góð, að engin verðung þótti að, þótt notuð væri, enda batnaði hestum og öðrum stórgripum oft bæði fljótt og vel við lækningu þessa. Eigi að síður munu ýmsir menn hafa gert lítið úr henni (sbr. Eimreiðin XXXIX ár, bls. 31) og gert skimp að þeim, sem notuðu hana. En napurt háð hefur aldrei orðið reynslunni að fótakefli. Sannleikurinn er sá, að lækning þessi er enn í dag notuð bæði hér og erlendis, eigi einungis við skepnur, heldur og við menn. Er þó, þegar um menn er að ræða, notaður silkiþráður í stað hrosshárs, og hefur kunnur læknir hér í bænum tjáð mér, að ráð þetta hafi oft og einatt reynzt vel til lækninga brjóstveikum mönnum.

Gistingarstaðir voru þá engir til, en menn fóru heim á bæina og þágu þar góðgerðir, mjólk og skyr eða þá kaffi, sem engin borgun var tekin fyrir. Þeir þurftu því að hafa nesti með sér til allrar ferðarinnar, en vel nestaðir þóttu þeir því aðeins, að þeir hefðu með sér reykt kjöt, harðfisk, kjúkur, heimabökuð brauð og flatkökur, smjör í öskjum og drykkjarílát, legil eða kút, með góðri sýrublöndu.

Matföng þessi höfðu þeir í malpokum sínum, er gjörðir voru úr búkhári eða fætlingum, líkir þverbakstöskum þeim, er síðar urðu, en með trébotni í báða enda og opi á a~narri hliðinni. Stóð lítt á þeim vatn, fremur en hærusekkjunum; svo þéttir voru þeir og vel gerðir. Smjöröskjur sínar með fangamarki eigandans, er grafið var á lokið og tóku 2-4 merkur (1-2 pund), geymdu þeir í malpokum sínum. Oftast voru 2 eða 3 tjöld meðfylgjandi hverri 20-30 hesta lest, og sváfu 4-6 menn í hverju þeirra. Voru þau gerð úr grófgerðu bandi eða hæruskotinni ullareinskeftu, og þoldu þau ágætlega bæði regn og rokviðri, væri þeim vel tjaldað. Tvær súlur, sín til hvors enda, og mæniás, sem kræktur var í súlurnar, héldu tjöldunum uppi og útþöndum, en tjaldhælar niðri. Í tjöldunum höfðu menn reiðtygi sín undir höfðinu, dýnur og meljur, en lágu á heyi eða mosa og höfðu brekán eða ábreiður yfir sér.

Hverjum fulltíða manni og lestafærum var ætlað að hafa 4-6 hesta í lest. Fylgdu þeir ávalt lestinni og riðu fremsta hestinum, alvönum og traustum vatnahesti, en bændurnir og aðrir, er lausríðandi voru, riðu ýmist með lestinni eða á undan henni. Brugðu þeir sér heim á bæina, til þess að þiggja þar góðgerðir og luku þá viðskiptum við þá menn, er þeir áttu erindi við. Viðskipti þessi voru ærið ólík því, sem nú eru þau, og áreiðanlega hagkvæmari aðiljum báðum.

Ferðin hafin

Áður en lagt var upp í langferðalögin, munu flestir þeirra, er þátt tóku í þeim, hafa minnzt orða sálmaskáldsins Hallgríms Péturssonar:

,,Bænarlaus aldrei byrjuð sé burtför frá þínu heimili“. Ferðin var ávallt hafin með því, að ferðamenn allir, ungir sem gamlir, kvöddu heimilismenn sína alla með virktum, stigu á bak hesti sínum og tóku ofan höfuðföt sín, lásu ferðamannsbæn sína í hljóði eða eitthvert gott og viðeigandi sálmvers, um leið og þeir lögðu af stað, og einnig „Faðirvorið“ sitt.

Siður þessi var fagur og sennilega gamall, en mun nú lagður niður með öllu. Var hann iðkaður alla ferðina til enda á morgni hverjum á leið heimanað og heim aftur. Hugsanir þær, er þá vöknuðu í hugum ferðamannanna, hafa efalaust verið góðar og göfugar, bænarorðin heit og innileg, því að nú var húsfaðirinn að kveðja konu sína og börn, ungi pilturinn eða unga stúlkan að kveðja föður sinn og móður, systkini sín og leikbræður. Stundum varð þetta hinzta kveðjan, framborin í trausti þess og einlægri trú, að vinanna, sem heima voru, mundi vel verða gætt, og að ferðalagið gengi að óskum. Siður þessi var og áhrifamikill fyrir þá, sem eftir urðu heima hjá sér, því að þeir vissu, að fyrir þeim var einnig beðið. Frá beggja hálfu voru jafnt ungir sem gamlir þátttakendur í bænariðju þessari. En nú mun hún, eins og áður er sagt, vera lögð niður bæði á sjó og landi. Hennar þykir eigi nein þörf lengur.

Til marks um, að þetta sé rétt, tilfæri ég smásögu eina úr sjómannahéraði einu, mannmörgu mjög.

Sjómaður var spurður: ,,Lásuð þið ekki sjóferðamannsbænina ykkar áður fyrrum sérhverju sinni, er þið fóruð á sjóinn, og lesið þið hana ekki ávallt enn?“

Verðið á feitum hesti var þá og eftir núgildandi peningaverði 10 krónur innan úr skinni eða ein vætt sölva og að auki einn fjórðungur af harðýsu stundum, en þó eigi ávallt, og voru sölin þá látin nægja ein. Síðar varð kaupandinn einnig að verka hána, þ. e. raka skinnið, eirlita það, reykja og þurrka. Heminga og höfuðleður fékk kaupandinn í kaupbætur. Stundum seldi Jón gamli einnig föður mínum unga hesta og hryssur til lífs. Vörur þær, er í móti komu, voru þessar: fiskæti ýmislegt, söltuð skata, hörð ýsa, hákarl og söl í ofanálag. Verðið á vörum þessum var ávallt og undantekningarlaust miðað við verðlagsskrá. Hef ég vikið að því hér að framan, hvernig viðskiptajöfnuður sá var gjörður.

Þá var það og eigi ótítt, að faðir minn léði Jóni gamla, viðskiptamanni sínum, peninga, 30-40 krónur til næsta hausts eða næstu kauptíðar. Var það ávallt skoðað sem skyndilán og að sjálfsögðu vaxtalaust, án þess að aðrir hefðu neitt af þeim viðskiptum að segja, því að engin skjöl eða skilríki voru fyrir þeim gerð. Orðin ein nægðu.

Svo var venjan rík og reglubundin í viðskiptum þessum öllum, að hvorugum málsaðila kom til hugar að selja eitt lóð af vöru sinni, hvað þá meira, til annarra en viðkomandi viðskiptamanns síns, fyrr en hann var frá genginn og hafði tjáð sig afhuga kaupunum. Þeir geymdu því vöru sína hvor öðrum og létu hana eigi fala neinum, hvað sem í boði var, fyrr en þeir höfðu talazt við og látið það af hendi hvor til annars, sem um var samið, og þann varning annan, er þeim lék hugur á að fá. Brigðmælgi í slíkum efnum, hvort sem um mikið eða lítið var að ræða, voru næstum óhugsanleg. Kæmi slíkt fyrir af annars hvors hálfu, voru það álitin svik, sem ávallt leiddu til þess, að öllum viðskiptum þeirra í millum var lokið um aldur og ævi.

Ég minnist þess eigi, að ég heyrði um nein svik talað, Sjómaðurinn svaraði: ,,Jú, við lásum bænina okkar og Faðirvorið þegar við fórum frá landi, hvort sem veðrið var gott eða vont. Nú les hana enginn maður. Við þurfum þess ekki með, því að nú erum við allir á mótor!“ Er vélamenningu nútímans þannig varið?

Vorlestirnar

Að voryrkjum loknum, fardagaflutningi, fráfærum, hirðingu taðs og ullar, svo og Jónsmessuferðum, þar þær. tíðkuðust, byrjuðu hinar svonefndu vorlestir. Sammæltust þá bændur úr byggðarlaginu og hinum næstu til þess að hittast á ákveðnum stað að kveldi og nátta sig á fyrsta áfangastaðnum. Slógu þeir þar tjöldum sínum, sváfu vel um nóttina og héldu síðan sem leiðir lágu lengra fram næsta morgun um langa vegu, vötn og eyðisanda. Hófust ferðir þessar á þá leið, sem áður er sagt, og þóttu vera hinar skemmtilegustu og ævintýramestu og þótti öllum ungum mönnum, piltum og stúlkum, mikils um vert að mega taka þátt í þeim; ríkti þar jafnan friður, gamansemi og gleði með góðri reglu og siðsemi, einlægum áhuga og viðleitni á því, að öllum, mönnum og málleysingjum liði vel. Þá var sungið og leikir hafðir ýmiss konar, en aldrei dansað.

Viðskiptamenn

Flestir bændur úr hinum fjarlægari sveitum höfðu árleg viðskipti við bændurna á Bakkanum, einkum á Stokkseyri, þótt engin væri þar verzlun í þá daga. Voru bændur þessir, sem þannig héldu uppi viðskiptum sín á milli, nefndir viðskiptamenn. Jón gamli Andrésson í Þykkvabæjarklausturshjáleigu í Álftaveri, góður bóndi og hreppstjóri þar í hreppnum, var um langt skeið viðskiptamaður föður míns. Seldi hann honum skinn, smjör og tólg, afsláttarhesta o. fl. þegar Skaftfellingur átti hlut að máli annars vegar, en Bakkamaður hins vegar, nema þegar Jón Magnússon frá Klaustri brást nafna sínum, Jóni í Móhúsum, með að koma Skerflóðs-Móra fyrir, um leið og hann kom Skottu fyrir kattarnef. Verður þeirra viðskipta getið síðar í heftum þessum.

Ferðalög fótgangandi manna

Þeir voru ekki allir háir í loftinu eða drekamenni nein drengirnir sumir, sem voru að ganga í verið út á Bakka eða suður með sjó áður fyrrum. Komu þeir alla leið austan úr Skaftafellssýslu, úr Landbroti, Álftaveri, Meðallandi og af Brunasandi, og jafnvel enn austar að, t. d. Fljótshverfi og Öræfum, með pjönkur sínar í helsingjapokum á herðum sér, baki og brjósti. föt sín, skinnklæði og eitthvert .nesti. Göngur þessar, þótt erfiðar væri óhörðnuðum unglingum um hávetur í hörkubyljum og hundaveðrum, urðu þó áreiðanlega til þess að koma seigjunni í þá og tápinu í margan þeirra, enda hlökkuðu þeir mjög til þess öll sín æskuár að geta sem fyrst átt kost á því að fara til vers eða eins og það einnig var nefnt, að fara í verið. Margir þeirra, sem enn eru á lífi, minnast ferða þessara ætíð með ánægju og gleði.

Gæti ég sagt frá ýmsu skemmtilegu í sambandi við ferðir þessar og því, sem á daga mína dreif í verinu. Sleppi ég því hér að öðru leyti en því að segja frá tveim ferðum, er farnar voru á síðustu tveim tugum liðinnar aldar (frá l 880 -1900). Varpa þær skýru ljósi yfir erfiðleikana, en jafnframt ávinninginn, sem menn höfðu af slíkum ferðum, engu síður en áræðnina, kjarkinn og þrautseigjuna, sem ungir menn sýndu á þeim árum.

Í janúarmánuði 1883 fóru þrír menn af Bakkanum suður til Reykjavíkur. Þeir voru allir fótgangandi og í þeim erindum að sækja þangað ýmsar vörur til útgerðar á Bakkanum: lóðarlínur, færi, hamp og öngla. Yngsti pilturinn var á 18. ári og bar 58 pund á baki sér á austurleið. Hinir voru rúmlega tvítugir að aldri, og báru þeir sín 56 pundin hvor.

Það var venja fótgangandi manna að fara hér upp á bæina sama kvöldið sem lagt var af stað austur til þess að geta hafið göngu sína því fyrr að morgni og komast yfir fjallið sama dag með því að fara Hellisheiði eða Lágaskarð.

Þeir náðu að Lækjarbotnum (nú svonefndu Lögbergi) um kvöldið og náttuðu sig þar. Síðar um kvöldið bættust þrír menn aðrir við í hópinn. Voru þeir úr Grímsnesi og Laugardal, menn á bezta skeiði, fílefldir mjög og fræknir göngugarpar. Byrði hvers þeirra var jafnvel innan við einn fjórðung að þyngd. Þeir máttu því teljast lausgangandi.

Um nóttina hafði hlaðið svo miklu fannkyngi niður, að hvergi sást til jarðar. Snjórinn var svo djúpur, að hann tók í mitt læri eða meir. Fönnin var þétt og þung mjög til umferðar. Eigi að síður lögðu piltarnir sex saman upp frá Lækjarbotnum klukkan tæplega sjö um morguninn, og tróðu þeir þrír, er léttastir voru á sér, brautina fyrir hina þrjá alla leið og án hvíldar upp að Kolviðarhóli, en þangað komu þeir kl. 5 um kvöldið og höfðu þá verið fullar tíu klukkustundir að komazt þangað. – Mun sú leið nú verða farin í bíl á tíu mínútum í sæmilegu veðri og færð, ef hratt er ekið, en það er 14 rasta leið.

Að Kolviðarhóli snæddu piltarnir af nesti sínu og fengu sér kaffi, en þótt veðrið væri þá orðið bæði illt og útlitið ískyggilegt mjög, lögðu piltarnir af Bakkanum bagga sína á bak sér og hófu gönguna upp á Hellisskarð; ætluðu þeir að freista þess að komast austur yfir Hellisheiði um kvöldið. Þetta þótti hinum piltunum þrem’ svo mikil vanvirða fyrir sig, að þeir lögðu af stað á eftir þeim og náðu þeim ofanvert við skarðið. Var þá skollin á blindhríð og bálviðri af norðri. Vegurinn var varðaður með 50 metra bili milli varða. Tóku þeir nú það ráð í stað þess að snúa strax við, að haldið skyldi áfram, þó svo, að tveir hinna fremstu sæi vörðu framundan sér, tveir hinir öftustu einnig vörðu aftur undan sér og tveir þeirra, er í miðið voru, sæi til þeirra, er á undan fóru og eftir. Þryti snoðræna þeirra í milli, skyldi snúa við hið bráðasta.

Brátt kom svo að því, að snoðrænan þraut, því að nú sáu þeir eigi lengur neina vörðu né hver til annars. Dysjuðu þeir því bagga sína undir einni vörðunni og hlupu sem fætur toguðu og færðin leyfði niður á Kolviðarhól. Þangað náðu þeir um náttmál og fengu óblíðar viðtökur ,,- þessir a ….. angurgapar -“ hjá Jóni gamla Jónssyni og konu hans, Kristínu Daníelsdóttur, en því betri og alúðlegri aðhlynningu hjá þeim hjónum báðum, meðan þeir stöldruðu þar við, en það var hvorki lengri né skemmri tími en þrjú dægrin næstu. Látlaus stórhríðin stóð allan þann tíma, svo að eigi sá út úr dyrunum, og eftir því var frostið mikið og fannfergjan.

Lögðu þeir svo enn á fjallið, endurnærðir vel og með öllu óþreyttir, fundu farangur sinn undir vörðunni og héldu svo áfram austur yfir fjallið, en á meðan gerði bleytuhríð og asahláku upp úr henni, svo að færðin varð enn þyngri og þéttari snjórinn.

Undir Kömbum skildu leiðir: Laugdælingar, bræður tveir, og Grímsnesingurinn fóru austur Ölfus, en Bakkamenn yfir Ölfusá á milli hverfa, Arnarbælis og Kaldaðarness. Óðu þeir krapelginn upp undir hné alla leið niður á Bakkann. Þangað komu þeir klukkan sjö um kvöldið og fóru síðan klukkan átta á sjónleik nokkurn, er þar var haldinn það kvöld. Til vinnu sinnar fóru þeir svo allir daginn á eftir, eins og ekkert hefði í skorizt.

Hinn 1. desember 1889 lögðu tveir menn af stað frá Felli í Mýrdal suður til Reykjavíkur. Var annar þeirra aldraður og hafði hest einn til reiðar, en hinn var ungur og hraustur vel. Fór hann fótgangandi sem fylgdarmaður hins eldra, er vildi verja mál sitt fyrir landsyfirréttinum í Reykjavík. Heim til sín komu þeir aftur á þrettánda dag jóla, 6. janúar 1890, og höfðu verið 37 daga í ferðinni fram og aftur, lent í vondum veðrum og umbrotaófærð báðar leiðir, teppzt við árnar dögum saman og verið 11 daga á leiðinni frá Reykjavík austur að Sandhólaferju við Þjórsá; það er nál. 77 kílómetra leið. Í Reykjavík dvöldust þeir aðeins 3 daga. Fylgdarmaðurinn kostaði ferð sína að öllu leyti báðar leiðir, nesti, gistingar á bæjunum, þar sem eitthvað var tekið fyrir þær, svo og dvöl sína í Reykjavík. Hann fékk 12 – tólf – krónur fyrir túrinn.

Öllum þeim, er línur þessar lesa, hlýtur að verða það ljóst, hversu mikið menn urðu oft og einatt að leggja á sig og að sér í baráttunni fyrir lífinu. Mætti línur þessar verða til þess að kenna ungu kynslóðinni að meta að verðleikum baráttuna, sem feður þeirra og mæður urðu að heyja fyrir velferð hinna ungu karla og kvenna og taka framfaraviðleitni þeirra sér til eftirbreytni. Stríð þeirra og strit var fyrir þau, og þeim er að þakka, að æskan fær nú að lifa við betri kjör en áður þekktust.

Viðtökur ferðamanna

Verzlunarstjórinn vissi jafnan, hvað lestunum leið, hinum gömlu og góðu viðskiptamönnum sínum, og var jafnan sjálfur á varðbergi og viðbúinn til þess að taka á móti þeim.

Sæi hann þá koma austan sandbakkana, gekk hann út úr búðinni og beið þess, að þeir þeystu í hlaðið, berhöfðaðir og brosleitir, margir saman og í einni fylkingu, til þess að fagna þessum fornvini sínum, er ávallt tók á móti þeim hverjum og einum með opnum örmum: Þeir höfðu ekki hitzt síðan í fyrra eða árið þar áður. Voru þeir þá þegar leiddir inn í skrifstofu hans, en þar voru borð sett fram með víni í glösum, er þeir gerðu sér gott af, á meðan þeir biðu eftir lest sinni og ræddu um ferðalagið, hvernig verðlagið væri nú á helztu vörutegundum þeim, innlendum og erlendum, er í framboði væri af hálfu aðilja, þeirra og verzlunarinnar, og þökkuðu þeir nú hvor um sig hinum fyrir síðustu viðskipti og viðtökur allar.

Að hálfri stundu liðinni eða svo sást til lestanna, óslitinnar raðar margra hesta og meðreiðarmanna þeirra. Stóðu þá bændurnir upp úr sætum sínum með sína brennivínsflöskuna hver í hendi sér til að gæða lestamönnum sínum á, meðan þeir fönsuðu farangur sinn, hrúguðu saman bögglum og reiðtygjum og tjölduðu hver á sínum tiltekna stað í þetta sinn sem ávallt áður um margra ára skeið. En þeir voru ekki látnir einir um þetta, því að nú voru duglegustu erfiðismennirnir, þ. e. þeir, sem voru við vinnuna utanbúðar, sendir á móti þeim til þess að taka ofan af hestunum með þeim og bera inn í vörugeymsluhúsin hærusekkina með ullinni, tólgarskildina og smjördallana, harðfiskinn og aðrar þær vörur, er þeir höfðu meðferðis. Var því öllu komið fyrir og því raðað í þeirri röð og reglu, sem eigendurnir komu með þær og þá bar að, svo að hver og einn gæti gengið að sínu, þegar að því kæmi, að vörurnar skyldi skoðaðar, vegnar og mældar; þurfti eigi að gera ráð fyrir því, að það yrði fyrr en eftir 2-3 daga.

Gátu því bændurnir og fylgdarlið þeirra búizt vel um, hvílt sig og sofið rólega fram yfir árris næstu morgna, er ávallt byrjuðu með því, að þeim var boðið kaffi í ferðamannaskýlum þar skammt frá, sem tjöldin stóðu. Fékk þá ferðamaðurinn, hver fyrir sig, merki, er á var ritað: ,,Ferðamannakaffi“, er hann svo sýndi í ferðamannaskýlinu, nær sem hann lysti til. Kaffi þetta með nægu brauði, tvíbökum, kringlum og skonroki var ókeypis. Bar það oft við, að um hádegisbilið var búið að útbýta um 500 kaffibollum. Þótt „bakkelsi“ þetta mundi nú eigi vera talið fínt, verður að gæta þess, að allt það brauð, er bakað var í brauðgerðarhúsinu á Bakkanum, var miklu betra og ljúffengara en nokkurt annað brauð, er þekkzt hefur hér sunnanlands, og það voru því „náttúrlegar góðgerðir“, eins og karlinn sagði, að fá þær eftir vild sinni, meðan staðið var við.

Þegar búið var að taka ofan af hestunum, kom fjöldi drengja frá verzluninni með duglegum foringja. Tóku þeir hestana, fluttu þá upp í mýri, heftu þá þar og gættu þeirra, unz taka þurfti til þeirra til heimferðarinnar aftur. Komst þá margur drengurinn í tæri við tápmikinn klárinn, er hann mátti nota eftir vild sinni, en í hófi þó, og bar það aldrei við, að drengirnir misnotuðu sér traust það, er þeim var sýnt með þessu, enda vissu þeir það vel, að hestarnir voru langþreyttir og þurftu hvíldarinnar við. Það voru því aðeins helztu reiðhestarnir, gæðingarnir mestu, er eigendurnir leyfðu þeim að nota, en ekki áburðarhestar, enda voru það hestar, sem hafðir voru með öðrum hesti til reiðar og því ólúnari. Það var eigi sízt hestanna vegna, að ferðamennirnir höfðu engan asa á sér né óðagot, eftir að þeir voru komnir alla leið út á Bakkann, og biðu því rólegir þess, að þeim væri gert aðvart um, að nú væri að þeim komið.

Leave a Reply